Florence Giroux Gravel (CA)

Valse / Vals

Valse (Vals) er bergmálshellir tilfinninga, þar sem undirmeðvitundinni er leyft að leiða okkur um. Á hljóðlátan hátt lætur vindurinn efnið dansa vals. Þetta „mise en abyme“ skal upplifað af einum í einu.
Þegar áhorfandinn lifir sig inn í verkið, kallar það fram fínlegt gagnsæi milli þess sýnilega og þess ósýnilega: taktur, ómur og titringur sameinast.

//

Florence Giroux Gravel hlaut MFA próf frá Université Paris 1 Panthéon-Sorbonne og stundaði síðan nám í stúdíó list við New York University. Hún býr í Quebec-borg í Kanada og hefur sýnt verk sín í Kanada, Bandaríkjunum og Frakklandi.

Í verkum sínum leikur Florence sér með skynjun, hreyfingar og sjónarhorn. Hún hefur í gegnum tíðina notast við þræði en notar nú einnig gler og textíl til þess að gefa verkum sínum nýja vídd í formi tungumáls plastsins. Verk hennar snúast um umvefjandi sjónrænar upplifanir þar sem list, byggingarlist og yfirnáttúruleg svið mætast.

www.florencegirouxgravel.com
@florencegirouxgravel


Alda Ægisdóttir (IS)

Frjóvgun

Skúlptúrainnsetningin Frjóvgun sýnir plöntur og skordýr úr fantasíuheimi. Búsvæði heimsins er innblásið af æxlunarkerfum plantna, þar sem pöddur og flugur spila stórt hlutverk. Skærir litir veranna skerast á við iðnaðaryfirbragð verksmiðjunnar og skapa með því spennu sem veitir skúlptúrunum líf.

//

Alda Ægisdóttir (f. 1999) er íslenskur listamaður og kvikmyndaleikstjóri. Hún býr til skúlptúra með yfirnáttúrulegu yfirbragði, sem hún sýnir og/eða gefur líf sem hreyfimyndir. Heimur hennar er þekkjanlegur út af skærum litum og endurteknum mynstrum. Alda vann til verðlauna fyrir bestu
tilraunakvikmynd á Stockfish kvikmyndahátíðinni árið 2023 og hefur sýnt verk sín í galleríum og opinberum rýmum um allt Ísland.

www.aldaaegisdottir.com


FERRELYTE (Kamile Pikelyte and Victoria Björk Ferrell) (IS / LT)

BRANDUOLYJE / Í BRENNIDEPLI

Í BRENNIDEPLI á uppruna sinn í náttúrulegri hringrás eyðileggingar og sköpunar. Með því að leika sér með táknmyndir skúlptúra og efnislega táknfræði norrænnar nýheiðni, afhjúpa listamennirnir viðkvæmni tilverunnar og eðli vistfræðilegs hruns, en skilningur okkar á því hefur verið skekktur framar því sem þekkst getur.

//

Kamile og Victoria Björk útskrifuðust frá Listaháskóla Íslands árið 2022. Kamile notast við myndbandsupptökur, þrívíddarmyndsetningu, skúlptúragerð, gjörninga, og rafræn skjalasöfn til þess að nálgast óhreinindi sem kerfisbundið tæki til að sýna fram á falinn veruleika, þar á meðal arðrán, fátækt og mengun, sem samfélagið álítur “skítugt”.
Victoria Björk vinnur með skúlptúra og innsetningar úr náttúrulegum og fundnum efnum til þess að kanna hið óþekkta, ummerki tímans í umhverfinu og ímyndaða möguleika fortíðar og framtíðar.

www.victoriabjork.com
@victoriabjork_
www.kamilepikelyte.com
@kamilekleckas
@ferrelyte


Jana Rinchenbachová (CZ)

eTERNal fLIGHT

eTERNal fLIGHT sýnir ferðalag kríunnar um hnöttinn. Með því að nota glerperlur sem dreifa ljósi í margar smáar spegilmyndir myndast þrívíðar myndir úr ljósi í rýminu. Kríugarg, sem heyrist að utan, fylgir myndefni rýmisins og býður áhorfandanum að upplifa langt ferðalagið með öllum
skilningarvitum.

//

Jana Rinchenbachová útskrifaðist frá Studio of TransArts við University of Applied Arts í Vínarborg árið 2017. Verk hennar taka tillit til návistar áhorfendanna og leggja áherslu á gagnvirkar innsetningar í rauntíma sem rýna í sambandið á milli náttúru og gervis. Hún býr í Brno í Tékklandi.
www.rinchenbachova.com


Heimir Hlöðversson (IS)

Lífsneistinn

Myndbandsverkið Spark of Life skoðar kenninguna um það að líf hafi fyrst komið fram á jörðu í efnasúpu fyrir 3,5 milljörðum ára. Verkið samanstendur af nærmyndum af efnahvörfum sem tákna lífsneistann, og sýna fram á ótrúlega grípandi abstrakt heim þegar þysjað er inn og myndirnar stækkaðar.

//

Heimir Freyr Hlöðversson er sjálfstætt starfandi kvikmyndagerðarmaður og fjölmiðlalistamaður sem hefur lagt áherslu á heimildamyndir, myndbandalist og verk sem hægt er að lifa sig inn í. Flest verk Heimis tengjast náttúrunni og loftslagsbreytingum, þar sem hann hefur miklar áhyggjur af áhrifum mannkyns á umhverfið. Hann trúir því að list geti verið öflugt tæki til þess að vekja athygli og hvetja til breytinga og hefur helgað sig því að nota rödd sína til þess að vekja athygli á sjálfbærni og
náttúruvernd.

www.nr10.is
@heimirfr


Gudrita Lape (IS)

Stíga í laukana

Laukur hefur fjölbreytta merkingu eftir menningarheimum og getur táknað allt frá galdramætti yfir í öfund. Laukur er bæði sótthreinsandi og bakteríudrepandi, og hefur lengi vel verið lofaður vegna tengingar hans við eilífðina.
Í verkinu er notast við laukhýði, svart te og annatto fyrir lit og áferð, sem gefur því óreiðukenndan grófleika og aðkallandi eiginleika. Náttúrulegum efnum hefur verið lappað saman og hvert fyrir sig skilur eftir sitt mark. Undir hulunni minna mótin af grænum laukum á loga bænakerta í kapellum. Möguleiki brýst fram: að einu af áköllunum verði svarað.

//

Myndlistakonan Gudrita Lape er frá Litháen, uppalin á Íslandi og býr nú í Valencia á Spáni. Verk hennar spanna svið gjörningalistar, innsetninga tileinkuðum samfélagsvitund og matarlist – endurunnir, nostalgískir og áþreifanlegir munir og textíll liðsinna henni. Gudrita útskrifaðist frá
Listaháskóla Íslands.

www.gudritalape.com
@gudasingood
@skarelei


Maria-Carmela Raso (CA)

Mama like porridge

Mama like porridge er hljóðverk sem byggt er á reynslu listamannsins af dögunum eftir barnsburð. Átök brjótast út á milli styrks og veikleika, raunveruleika og skynjaðs veruleika, hamingju og dapurleika.

//

Maria-Carmela Raso er pródúsent, tónskáld og söngvari sem býr í Reykjavík. Hún hefur komið fram í Toronto og Reykjavík sem flytjandi og spunaleikari, og unnið í samstarfi með listamönnum á borð við Tanya Tagaq and the Element Choir (þekkt fyrir tónlistina í ‘The Witch’). Hún hefur tekið upp tónlist fyrir kvikmyndir, og hefur að auki samið tónlist fyrir kvikmyndir og myndbönd. Hún notast við raftækni, raddir og ýmis hljóðfæri til þess að skapa hljóðheima sem kanna mörkin á milli fegurðar og óþæginda. Hljóðverk hennar hafa meðal annars verið sýnd á Íslandi, Finnlandi, Póllandi, Kanada, Frakklandi og Tékklandi.

www.mseasik.bandcamp.com/track/mouth-of-the-face-of-the-sea
@mseasik


Clara Holt (IT)

Tales from the North

Verkið samanstendur af fjölda lóðréttra keramik platna sem skreyttir hafa verið með bláum engobe-leir og sgraffito aðferð. Hver plata samanstendur af nokkrum óreglulegum, handgerðum flísum og segir sögu byggða á norrænni goðafræði.

//

Clara Holt er leirlistamaður sem er fædd og uppalin í smábæ á miðri Ítalíu en býr nú og starfar í Mílanó. Hún er með bakgrunn í teikningum en ástríða hennar fyrir leirlist átti upphaf sitt árið 2018 með tilraunastarfsemi á lítilli vinnustofu. Hún skapar einna helst myndskreytt skrautleg verk og
veggmyndir úr flísum, sem hún skreytir með skrafító-tækni og undirglerjun, samhliða því sem hún kennir aðferðir við skreytingar leirmuna. Hún vinnur að auki með ætingu (e. etching) og ætimyndir (e.
aquatint).

www.claraholt.com
@clara.holt.ceramics


Jette Dalsgaard (DK)

I wish you well

I wish you well samanstendur af bómullarefni sem hefur verið litað með náttúrulegum efnum og hengt á sjö hringlaga hluti. Með því að notast við íslenskar plöntur, ber, steinefni og jarðveg tjá lituðu hringirnir náttúrulega landslagið og verka á víxl við steinsteypt umhverfi Verksmiðjunnar.
Formin enduróma arkítektúr rýmisins og sveiflukenndu eðli shamanískra ferðalaga, og minna mann á að streitast ekki gegn þeim hugsunum og tilfinningum sem fara í gegnum hugann, heldur taka þeim með hugrekki, hlýju og virðingu.

//

Við skúlptúragerð og innsetningar notast Jette Dalsgaard við við, málm, keramik, textíl, stein ásamt öðrum efnum. Breytileikinn í áferð og útliti skapar viðkvæman, áþreifanlegan heim, þar sem abstrakt form verða, með staðsetningu sinni og sambandi við hvert annað, að eins konar líkamlegu
ljóði. Jette er með BFA gráðu frá the Royal Academy of Art (Haag, Hollandi) og er nú að klára MA nám við Listaháskóla Íslands.

www.jettedalsgaard.com
@jettedalsgaard_art


Sofie Hermansen Eriksdatter (DK)

DRIV / DRIFT

Sofie Hermansen Eriksdatter er með MA-gráðu í Aesthetics and Culture frá Aarhus University. Hún er að auki menntuð frá the inter-Nordic Writing Academy (SKRIVEKUNSTAKADEMIET) í Bergen, Noregi. Sofie hefur einna helst starfað sem ljóðskáld. Hún nálgast tungumálið á milli þess dveljandi og þess dýnamíska. Hún hefur mikinn áhuga á sambandinu á milli (kven)fólks og náttúru, míkró- og makróheima, og skoðar dýnamík hrörnunar.

Verk hennar hafa verið gefin út í hinum ýmsu norrænu safnritum og tímaritum, auk þess sem hún hefur gefið út eina ljóðabók: Under gulvet gror der planter // Under the floor plants are growing og
Lady Dawn synger vuggeviser // Lady Dawn sings Lullabies mun koma út snemma árs 2022.

@sofieeriksdatter


Linnéa Falck (SE)

Völundarhús

Völundarhús úr steini hafa lengi verið notuð á norrænum slóðum sem tenging við náttúruna: til að mynda hafa sjómenn gengið í gegnum slík völundarhús til þess að tryggja sér heppni og meðbyr áður en haldið var til hafs. Með því að ganga í gegnum þetta sjöfalda völundarhús, sem byggt er með steinum úr læknum hér á svæðinu, samþættum við huga og líkama. Við göngum inn að suðvestan, en venja er í norrænum völundarhúsum að inngangurinn sé til móts við helstu vindátt. Sem slík hjálpar þessi íhugla hljóðganga okkur að hlusta á þennan stað, nú og fyrr.

//

Linnéa Falck (f. 1982) er tónskáld og þverfaglegur listamaður sem kannar aðferðir til þess að hlusta og tengja. Markmið verka hennar er að leyfa viðfangsefninu að tala, og eru verkin oft bundin við stað, flytjanda og hljóð. Hún hefur reynslu af gerð textíl mynsturs og er vottuð sem „Deep Listening“ leiðbeinandi. Hún er upprunalega frá Norður-Svíþjóð en býr nú í Reykjavík.

www.linneafalck.com


Nína Óskarsdóttir (IS)

Eilífð, eitt augnablik

Eilífir logar mæta okkur: kyrrir, kaldir og gegnheilir ögra þeir skilningarvitum okkar. Þeir standa af sér bæði veður og vinda, og það slokknar ekki á þeim sama hvað reynt er. Voru þeir til í gær? Verða
þeir til á morgun? Skammlífi hlutanna rennur upp fyrir manni og í kjölfarið fylgir efi. Hvernig er hægt að vera uppi á þessum tímum og hafa trú? Logarnir bjóða fram svar: hafið trú á þeim.

//

Nína Óskarsdóttir er með MA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands (2020), og er einnig með BA-gráðu frá sama skóla (2014). Hún notar leir, textíl og ljós í bland við skammlíf efni á borð við vatn, eld og matvæli til þess að skapa flóknar innsetningar sem kanna bæði efnislega og samfélagslega merkingarsköpun. Nína hefur dvalið í nokkrum listamiðstöðvum og sýnt verk sín bæði hér heima og erlendis.

www.ninaoskarsdottir.com
@ninaoskarsdottir